2. mars 2024 kl. 14:54
Innlendar fréttir
Jarðhræringar á Reykjanesskaga

Tæplega 10 milljónir rúmmetra og styttist í gos

Rétt tæplega tíu milljónir rúmmetra af kviku hafa safnast fyrir undir Svartsengi á Reykjanesskaga, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Hraði á landrisi hefur haldist svipaður og talið er að það sé mjög stutt í eldgos. Gosið hefur undanfarnar vikur og mánuði þegar kvikumagnið hefur náð frá átta til þrettán milljónum rúmmetra. Líklegast er að kvika nái upp á yfirborð á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og gæti það hafist með mjög stuttum fyrirvara. Starfsemi í orkuverinu í Svartsengi hefur verið órofin þrátt fyrir tíð eldgos allt í kringum verið og öfluga jarðskjálfta. Þaðan kemur bæði rafmagn og heitt vatn.