Ferðamenn baða sig á heitum leynistað í Eyjafirði
Lækurinn myndaðist þegar bormenn í Vaðlaheiðargöngum lentu á heitri vatnsæð með afleiðingum sem flestum eru kunnar.
Leit á Google Maps er besta leiðin til að finna þennan leynistað sem ferðamenn leita uppi til að fara í ókeypis heitt bað úti í náttúrunni. Vatnið fellur fram af klettum í sjóinn og þó að lækurinn sjálfur sé baðstaðurinn, þá er fossinn helsta aðdráttaraflið.
Staðurinn er hvergi skráður hjá ferðaþjónustunni, engar merkingar og engin aðstaða, nema sjálfrennandi 30 gráðu heitt vatn. Þarna hengja menn fötin bara á næsta runna og náttúrulegt umhverfið dregur að.
En baðgestir eru aðeins á varðbergi enda vita þeir ekki hvort þeir mega yfir höfuð baða sig þarna.