12. apríl 2024 kl. 21:36
Innlendar fréttir
Reykjavíkurborg
Eldur í rafhlaupahjóli í Breiðholti
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út um kvöldmatarleytið í kvöld vegna elds í sameign í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Þar hafði kviknað í rafhlaupahjóli sem var í hleðslu. Vel gekk að slökkva eldinn en mikinn og eitraðan reyk lagði frá eldinum.
Nokkurn tíma tók að reykræsta sameignina og ljóst að einhverjar skemmdir hafa orðið af völdum reyksins.
Nú þegar vorið er á næsta leiti má búast við fleiri rafhlaupahjólum og öðrum farartækjum á göngu- og hjólastígum. Gæta þarf að því hvar og hvernig slík tæki eru höfð í hleðslu svo ekki fari illa.