Vara við hálku og krapa sunnanvert á landinu
Nokkuð hefur snjóað á landinu sunnanverðu og myndast hálka og krapi á mörgum leiðum. Vegagerðin segir nauðsynlegt að aka varlega, sérstaklega eigi það við ökumenn sem komnir eru á sumardekk.
Krapi og snjókoma er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka er á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en snjóþekja á Kjósarskarðsvegi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Fróðárheiði en hálkublettir og éljagangur nokkuð víða á Snæfellsnesi. Einnig er snjóþekja og éljagangur á Vatnaleið, Holtavöðuheiði og Bröttubrekku.
Veðurstofan spáir hægri breytilegri átt í dag og dálitlum skúrum eða éljum. Hiti frá frostmarki að sjö stigum að deginum, mildast syðst. Hæg norðlæg átt verður ríkjandi á fimmtudag, dálítil él og svalt í veðri. Um helgina er útlit fyrir suðlæga átt með vætu og hlýnandi veðri, en lengst af þurru um landið norðaustanvert.