7. júní 2024 kl. 11:58
Innlendar fréttir
Lögreglumál

Leita enn manns sem hefur hrellt börn í Hafnarfirði

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn manns sem hefur hrellt börn í bænum undanfarnar vikur. Enginn hefur verið handtekinn síðan á síðasta föstudag þegar maður var handtekinn og yfirheyrður af lögreglu en sleppt eftir það.

Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni segir að búið sé að tala við nokkra en ekki sé vitað hvort einhver af þeim sé sá sem er leitað að.

Lögreglan hefur verið með aukið eftirlit eftir að fyrst var tilkynnt um mann sem veittist að börnum í byrjun maí. Aðspurður segir Sævar lögregluna á tánum með þetta mál og eftirlit verði áfram þrátt fyrir að skólastarfi sé lokið. „Börnin fara ekkert þó skólanum ljúki.“

Lögregla sé alltaf að fá vísbendingar og ábendingar. „Við höldum áfram að skoða þær og fylgja þeim eftir, það breytist ekki þó að skólanum ljúki.“