Jarðskjálfti 3,4 að stærð, varð í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni á tólfta tímanum. Honum fylgdi einn eftirskjálfti 1,2 að stærð. Frá áramótum hafa fjórtán skjálftar, þrír að stærð eða stærri, orðið á þessum slóðum, sá stærsti 5,4 þann 21. apríl. Hann er sá stærsti sem mælst hefur frá goslokum í febrúar 2015.
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir skjálfta sem þessa vera algenga og tengjast hefðbundinni virkni í Bárðarbungu. Ekkert bendi til þess að skjálftinn tengist eldgosavirkni.
Jarðskjálftar mælast reglulega í grennd við eldstöðina Bárðarbungu í Vatnajökli.RÚV / Einar Rafnsson