Útflutningstekjur iðnaðar dragast saman
Útflutningstekjur iðnaðar á Íslandi drógust saman um 7% á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þær höfðu dregist saman um 10% milli áranna 2022 og 2023.
Í samantekt Samtaka iðnaðarins segir að ástæða samdráttarins sé minni útflutningstekjur af áli og kísiljárni. Skerðing á afhendingu raforku frá Landsvirkjun hefur haft neikvæð áhrif á orkufrekan iðnað.
Landsvirkjun hefur þurft að skerða afhendingu raforku og búist er við að því verði haldið áfram. Í tilkynningu frá Landsvirkjun í gær kom fram að staða í lónum fyrirtækisins væri frekar slæm.
Iðnaður er sem fyrr stærsta útflutningsgrein landsins og stendur undir 38% af útflutningsverðmætum. Þar af er hugverkaiðnaður í mestum vexti. Til marks um það nam þjónusta sem hugverkaiðnaður fellur undir 14% af útflutningstekjum árið 2013 og 28% í fyrra.