12. ágúst 2024 kl. 12:04
Innlendar fréttir
Suðurland

Falskt neyð­ar­boð óupp­lýst

Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um fölsuð neyðarboð vegna tveggja ferðamanna, sem voru sagðir fastir í helli í Kerlingarfjöllum í síðustu viku. Samkvæmt hegningarlögum getur varðað sektum og allt að þriggja mánaða fangelsisvist að hrekkja lögreglu og björgunarlið með þessum hætti.

Neyðarboðið barst í gegnum netspjall Neyðarlínunnar. Lögreglan á Suðurlandi skoðar uppruna boðsins.

„Það eru svona ákveðnar vísbendingar í tilkynningunni sem við erum að skoða. Það eru engir endar sem standa eftir. Ekkert sem stendur út af eftir þessa miklu leit,“ sagði Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, við fréttastofu fyrir helgi.

Mikill viðbúnaður var vegna neyðarboðsins og voru hátt í tvö hundruð björgunarmenn við leit í tæpan sólarhring. Svipað atvik átti sér stað fyrir um tuttugu árum en Sveinn segir að yfirleitt sé hægt að greina hrekki strax.

Lögreglan biður fólk vinsamlega að hafa samband í síma 444-2000 eða á netfangið sudurland@logreglan.is búi það yfir upplýsingum.

Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.RÚV / Þór Ægisson