13. ágúst 2024 kl. 7:02
Innlendar fréttir
Jarðhræringar á Reykjanesskaga
Brýnt að fylgjast með framvindu mála
Undanfarinn sólarhring hafa mælst um 70 smáir jarðskjálftar við kvikuganginn við Sundhnúksgíga og á annan tug frá því um miðnætti.
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir skjálftavirknina hafa farið stígandi undanfarna daga. Hún segir ómögulegt að spá fyrir um hvenær til tíðinda dregur, kvikumagnið sé orðið svipað og var fyrir síðasta gos. Því sé afar mikilvægt að fylgjast vel með framvindu mála.
Aflögunargögn og líkanreikningar sýna merki um að kvikuþrýstingur sé áfram að aukast undir Svartsengi, sem er svipuð þróun og vikurnar fyrir undanfarin kvikuhlaup og eldgos. Sigríður Magnea áréttar að aflögunarmerki sýni þó ekki að eldgos sé í þann mund að hefjast.