Hvorki landris né landsig í Svartsengi
Nokkuð hefur dregið úr krafti eldgossins við Sundhnúksgíga síðustu daga og hvorki hefur mælst landris né landsig í Svartsengi. Það bendi til þess að innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé sambærilegt við flæðið úr eldgosinu. Þetta kemur fram í frétt á vef Veðurstofu Íslands.
Til þess að vita fyrir víst hvort landris sé hafið á ný þurfi að horfa á þróun mælinga í nokkra daga. Ýmislegar breytingar geta orðið milli daga sem geta haft áhrif á mælingar, svo sem rakainnihald í lofthjúp og sólstormar.
Tvö gosop eru virk í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni sem hófst í ágúst. Hraunbreiðan norðan við gosopin stækkar áfram en dregið hefur úr útbreiðsluhraða hennar. Hraunflæði ógnar ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna eins og staðan er núna. Von er á nýju hættumati síðar í dag.