20. september 2024 kl. 11:39
Innlendar fréttir
Stjórnmál

Afsögn varaþingmennsku ekki tengd Mannréttindastofnun

Brynjar Níelsson.Skjáskot / Kastljós

Brynjar Níelsson segir að ákvörðunin að segja af sér varaþingmennsku sé ekki tengd tilnefningu hans í stjórn Mannréttindastofnunar Íslands.

Hann segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ákveðið að hætta í stjórnmálum þegar hann féll af þingi í síðustu kosningum, en svo hafi leið hans legið í störf tengd stjórnmálum. Fyrst var hann aðstoðarmaður Jóns Gunnarsonar dómsmálaráðherra og síðar tók hann að sér verkefni í utanríkis- og fjármálaráðuneytunum.

„Þegar því var lokið taldi ég að tími væri kominn til að snúa mér að öðrum störfum, en varaþingmennska getur þá verið hamlandi.“

Brynjar segir að ákvörðun hans hafi legið fyrir fyrir um tveimur vikum síðan en eftir það hafi fólk komið að orði við hann um að taka sæti í stjórn Mannréttindastofnunar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Svo verði bara að koma í ljós hvernig Alþingi afgreiðir skipun í stjórn stofnunarinnar.