Ekið á gangandi vegfaranda á Sæbraut
Fólksbíl var ekið á gangandi vegfaranda við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar eftir miðnætti í gærkvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var slysið alvarlegt en upplýsingar um líðan þess sem ekið var á liggja ekki fyrir.
Sæbraut var lokað í báðar áttir frá Vesturlandsvegi að Holtavegi í um það bil tvær klukkustundir í nótt meðan viðbragðsaðilar voru að störfum á vettvangi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir nokkurn fjölda vegfarenda hafa borið að og sýnt lokunum lítinn skilning.
„Lögregla minnir á að ávallt er góð ástæða fyrir lokunum lögreglu, en þær eru bæði til að tryggja vettvanginn í tengslum við rannsóknarhagsmuni auk þess að tryggja öryggi viðbragðsaðila sem starfa innan lokana,“ sagði í upplýsingapósti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Fréttin hefur verið uppfærð.