Svandís pakkaði niður á skrifstofunni og tekur ekki þátt í starfsstjórn
„Við verðum almennir þingmenn frá og með morgundeginum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, fráfarandi innviðaráðherra og formaður Vinstri grænna, í fréttum í gærkvöldi. Hún tók saman eigur sínar og pakkaði í kassa á skrifstofu sinni í ráðuneytinu.
„Þetta eru kaflaskil. Ég er búin að sitja í þessu samstarfi síðan 2017. Þetta hefur verið áskorun oft,“ segir Svandís. „Þetta er tímabil sem ég er stolt af að hafa tekið þátt í og lít svo á að við höfum fyrst og fremst verið að gera gagn fyrir samfélagið.“
Hún segir að fyrir liggi að forsætisráðherra hafi tekið ákvörðun um það að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu, án samráðs við samstarfsflokkana. „Við teljum vera ákveðinn trúnaðarbrest í þeim samskiptum án þess að eiga samtöl við formenn hinna stjórnarflokkanna, þannig að þetta varð okkar niðurstaða.“