Hlupu milli sjúkrahúsdeilda þegar allt samband rofnaði
Endurskoða þarf allt viðbragð eftir bilun eins og þá sem varð á öllu fjarskiptasambandi við Eyjafjörð í gær, segir öryggisfulltrúi á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Eina ráðið í aðstæðunum hafi verið að hlaupa milli staða.
Stefán Helgi Garðarsson, öryggisfulltrúi á SAk, segir það hafa verið mikinn létti þegar allt komst í samt lag og samband náðist á ný – en tilfinningin fram að því augnabliki hafi ekki verið góð. Lögreglan á Norðurlandi eystra tekur í sama streng.
Þó samband hafi komist aftur á segir hann ekki hafa verið ljóst strax hvort öllu væri óhætt. Allt viðbragð sé í endurskoðun en nokkrum skrefum hafi strax verið bætt við.