Raufarhólshellir er einn lengsti hellir Íslands.Ruv / Rúv
Um það bil sextíu jarðskjálftar hafa mælst við Raufarhólshelli í Leitarhrauni í Ölfusi undanfarna tólf tíma. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir litla hrinu í gangi. Það sé algengt á þessum slóðum.
Hann segir að rekja megi jarðskjálftana til spennulosunar í jarðskorpunni en ekki til kvikusöfnunar undir Svartsengi. Virknin var mest um miðjan dag í gær að sögn Bjarka, flestir skjálftarnir heldur smáir og sá stærsti mældist 2,1 laust fyrir klukkan fjögur í gær.