1. nóvember 2024 kl. 5:47
Innlendar fréttir
Kópavogsbær

Fjögurra manna fjölskylda komst af eigin rammleik út úr brennandi íbúð

Fjögurra manna fjölskylda var flutt á bráðamóttöku eftir að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað til á fjórða tímanum í nótt vegna eldsvoða í fjölbýlishúsi í Salahverfi í Kópavogi.

Slökkviliðsmaður að störfum.
Slökkviliðsmaður að störfum á vettvangi.Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Fjölskyldan er ekki talin alvarlega meidd. Að sögn varðstjóra komst hún af eigin rammleik úr íbúðinni þar sem logaði talsverður eldur.

Allir íbúar þeirra sex íbúða sem eru í húsinu þurftu að fara út meðan á slökkvistarfi stóð sem gekk greiðlega að sögn varðstjórans. Allir fengu að snúa til síns heima að slökkvistarfi loknu. Íbúðin er mikið skemmd, eldsupptök eru ókunn og það kemur í hlut lögreglu að rannsaka hvað olli brunanum.