Ungir kjósendur fengu orðið á Torginu
Torginu lokið – helstu umræður í myndskeiðum fyrir neðan
Torginu er lokið í kvöld en myndskeiðum með helstu umræðum hefur verið bætt við í fréttavaktina fyrir neðan. Við þökkum ykkur fyrir að fylgjast með. Fréttavaktinni er lokið.
Lokaorðin á Torginu í kvöld
Þá er komið að lokaorðum.
Hjördís Freyja segir að sér finnist margt sem íslenskt samfélag þurfi að bæta. Hún nefnir að stjórnmálaflokkar hafi komið í gegn flottum frumvörpum. Hún segist ekki vera búin að missa vonina og treysti sinni kynslóð.
„Ég held að þetta bjargist allt.“
Kjartan segir að hann búi ótrúlega góðu samfélagi þar sem fólk býr við jöfn tækifæri. Honum finnst að það þurfi að gera betur og að ríkisstjórn undanfarinna ára hafi verið stefnulaus.
„Við þurfum að ákveða í hvaða átt við ætlum.“
Anna segist hafa haft meiri trú fyrir kosningarnar heldur en nú. Henni finnst erfitt að sjá rísandi fylgi hjá flokk sem talar niðrandi um útlendingamál. Henni finnst margt horfa við í neikvæðu ljósi og hún hélt að samfélagið væri komið lengra.
„Hélt við værum á betri leið.“
Kolfinna segir Íslendinga mjög stolta af því að vera framarlega í jafnréttisbaráttu en það sé mikið sem þurfi að bæta. Hún segir mikla hvatningu fyrir ungt fólk til að gera vel og gera betur.
„Ég hef fulla trú á að við komumst á rétta leið.“
Birta segir ofsalega gott að búa á Íslandi. En það sé mikilvægt að það sé gott að búa hér fyrir öll sem það vilja. Hún segir Íslendinga búa svo vel að geta opnað dyr fyrir fólki sem þarfnast þess. Henni finnst varhugavert hvernig umræða um útlendinga hefur þróast upp á síðkastið.
„Það er pláss hérna fyrir miklu meira fólk og miklu meiri samúð.“
Sturla vonar að íslenskt samfélag verði bjartsýnara og að það sé trú á því að samfélagið geti orðið betra. Hann segir gott að búa á Íslandi en margt sem væri hægt að gera miklu betur.
„Við erum ekki bara litla Ísland, við erum 400 þúsund manna samfélag sem getur gert helling.“
Strákar á Íslandi líklegri en stelpur til að styðja Trump
Ungu kjósendurnir á Torginu segja að niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum muni hafa áhrif um allan heim.
Þau telja að ungir strákar á Íslandi séu líklegri en stelpur til að styðja Donald Trump.
Spurð hvort þau ætli að vaka í nótt eftir úrslitunum svarar Kjartan því játandi en Birta segist ekki ætla að gera það.
„Ég fer bara að sofa og vakna við breyttan heim.“
Minni tími – meiri skjátími – verri líðan ungs fólks
Hjördís Freyja Kjartansdóttir, formaður ungliðahreyfingar Unicef, segir að til þess að skoða málefni ungs fólks þurfi að skoða málefni barna.
„Unga fólkið okkar var fyrir mjög stuttu börn. Og það er mjög stutt þar til þau fara að eignast börn.“
Foreldrar verði að hafa varann á og átta sig á því að þegar þau leyfa börnum að leika sér í snjalltækjum séu að veita þeim aðgang að öllum heiminum. „Maður fer í matarboð og er úti að borða – þar eru börn í iPödum og símum endalaust. Þú ert kannski ekki alltaf að fylgjast með hvað þau eru að horfa á því þú ert að gera eitthvað annað.“
Þar spili jafnvel efnahagsmál inn. Þegar foreldrar þurfi að vinna meira í erfiðu efnahagsástandi séu börnin meira í tækjum, því foreldrarnir hafi minni tíma.
„Þetta helst allt í hendur.“
Hér má sjá umræður um geðheilbrigðismál:
Meginsamskiptamáti barna „óraunverulegur“
Sturla E. Jónsson stjórnmálafræðinemi er uggandi yfir þróuninni. Mjög ung börn, allt niður í tíu ára, séu að horfa á efni sem þau eigi alls ekki að hafa aðgang að.
„Ég held að það þurfi að fara í alvarlega umræðu um það hvaða áhrif það hefur á börn að þeirra meginsamskiptamáti sé óraunverulegur.“
Umhverfismál á oddinn
Ungu kjósendurnir á Torginu segja að umhverfismál þurfi að fá meiri athygli.
Þau eru gagnrýnin á stefnuleysi stjórnvalda og vilja að hugsað sé um umhverfismál í víðara samhengi. Þeim finnst erfitt að berjast fyrir málefnum sem stjórnvöld sýna lítinn áhuga á, segja þau.
Hér má sjá umræður um umhverfismál:
Kosningarnar vinnast ekki á TikTok
Jón Gunnar Ólafsson, lektor í stjórnmálafræði, segir samfélagsmiðla geta skipt miklu máli fyrir stjórnmálaflokka en hann segir að kosningarnar muni ekki vinnast á slíkum miðlum.
Meira af ungu fólki nýtir sér samfélagsmiðla til að afla sér upplýsinga en erfitt er að eiga í djúpri, lýðræðislegri umræðu á þeim miðlum, segir Jón Gunnar. Mikið magn upplýsinga er á samfélagsmiðlum og erfitt fyrir einstaka flokka að ná í gegn þar með stefnumál sín.
Jón Gunnar segir mikilvægt fyrir ungt fólk að vera gagnrýnið á þær upplýsingar sem eru á samfélagsmiðlum.
Myndbönd allra flokkanna „misgóð“
Allir stjórnmálaflokkarnir sendu inn myndbönd fyrr í vikunni, ætluð ungum kjósendum.
Ungu kjósendurnir á Torginu segja myndböndin „miðsgóð“. Flest voru þau sammála um að myndböndin þyrftu að vera með eitthvað kjöt á beinunum, ekki dugði að segja orð eins og „skibiti-toilet“ eða „young blood“.
Það sé einnig óljóst í hvaða ljósi flokkarnir sjá ungt fólk. Myndbönd Lýðræðisflokksins og Ábyrgrar framtíðar voru til dæmis tekin upp á leikvöllum.
Öll kosmingamyndböndin má sjá hér:
Og viðbörgð ungmennanna við þau má finna hér:
Kolfinna Sjöfn segist heldur vilja sjá hvernig flokkarnir ætla að útfæra stefnumálin sín á mannamáli. Hægt sé að nýta Tik-Tok til að miðla upplýsingum.
„Þau mega vera skemmtileg, en það þarf ekki að segja „skibity-toilet“ eða vera á róló,“ segir hún.
Erfitt að setja sig inn í málefni allra flokkanna
Kolfinna og Anna eru að kjósa í fyrsta sinn.
Anna segir að það sé flókið að setja sig inn í málefni allra flokka, óhjákvæmlegt sé að einblína frekar á stærri flokka.
Munur á hagsmunum yngri og eldri kjósenda, segir stjórnmálafræðiprófessor
Ungt fólk er ólíklegra til að mæta á kjörstað, segir Hulda Þórisdóttir stjórnmálafræðiprófessor.
Hulda segir að það geti haft áhrif hve margir flokkar eru í framboði. Það sé mikið verkefni fyrir unga kjósendur að kynna sér áherslur allra flokka.
Munur á viðhorfum yngri og eldri kjósenda er augljós t.d. í umhverfismálum og málefnum hinsegin fólks. Ungir eru frjálslyndari en þeir sem eldri eru, segir Hulda.
Þátttaka í kosningum er ein af lykilstoðum lýðræðis og því skiptir miklu máli að kjósa. Að kjósa er vanabundin hegðun og því mikilvægt að fá unga kjósendur á kjörstað. Hagsmunir ungs fólks fer ekki alltaf saman með hagsmunum þeirra sem eldri eru.
Húsnæðismál efst á baugi
Flest þeirra sem mætt eru á Torgið segja húsnæðismál þeim helst á baugi fyrir komandi kosningar.
Einnig voru nefnd umhverfismál og útlendingamál. „Bæði því það snertir mig og mitt umhverfi mjög mikið og líka bara einstaklingarnir sem eru að bjóða sig fram. Hvernig þeir bera sig og tala um málefnin,“ segir Anna Sonde, nemi í Verzlunarskóla Íslands.
Rætt er um húsnæðismálin hér:
#ÉgKýs
Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri Landsambands ungmennafélaga (LUF), er í salnum. Hún fer fyrir verkefninu #ÉgKýs sem er ætlað að efla kosningaþátttöku ungs fólks.
Skuggakosningar verða fyrir Alþingiskosningarnar um miðjan nóvember. Vefsíðu #ÉgKýs má finna hér.
Velkomin í Torgið
Torgið er hafið. Viðmælendur þáttarins í kvöld eru:
- Hjördís Freyja Kjartansdóttir. Formaður ungliðahreyfingar Unicef.
- Kjartan Leifur Sigurðsson. Nemi í lögfræði.
- Anna Sonde. Nemi í Verslunarskóla Íslands.
- Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir. Menntaskólanum á Laugarvatni.
- Birta Björnsdóttir Kjerúlf. Meistaranemi í alþjóðasamskiptum.
- Sturla E. Jónsson. Stjórnmálafræðinemi