24. nóvember 2024 kl. 8:12
Innlendar fréttir
Veður
Hvassir vindstrengir á Suðausturlandi og Austfjörðum
Það gengur á með norðan strekkingi og dálitlum éljum á Norður- og Austurlandi í dag en yfirleitt bjart í öðrum landshlutum. Við virðumst ætla að sleppa að mestu leyti frá djúpri lægð um 600 kílómetra norðvestur af Írlandi sem olli hvassviðri og úrhellisrigningu á Bretlandseyjum í gær. Lægðin veldur einnig norðaustan illviðri í Færeyjum í dag.
Á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum má búast við hvössum vindstrengjum ofan af jöklum og hálendinu. Varasamar aðstæður geta skapast fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Áfram verður kalt í veðri í dag, frost að níu stigum inn til landsins. Á morgun herðir heldur á frosti.