Aldrei fundist eins mikið plast í maga fýls við Íslandsstrendur
Síðan 2018 hafa rannsakendur Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík tínt plastagnir úr meltingarvegi dauðra fýla, sem hafa flækst í veiðarfærum sjómanna hér og þar um landið.
Í ár var plast í maga rúmlega sjötíu prósent þeirra fýla sem enduðu á krufningarborði Náttúrustofunnar, en þeir voru um fjörutíu í ár. Einn fuglanna fékk þann vafasama heiður að slá Íslandsmetið yfir magn af plasti sem hefur fundist í einum fýl.
Í honum mældust 4 grömm af plasti, en fuglarnir eru ekki nema um 800 grömm. Til að setja það í samhengi, er það eins og að 400 grömm af plasti væru í maga 80 kílóa manneskju. Það jafngildir því að gleypa um það bil 17 hálfs líters plastflöskur.