Hópur ferðamanna situr fastur í Kerlingarfjöllum. Beiðni barst um aðstoð á sjöunda tímanum í morgun þar sem hópurinn hafði ekki skilað sér heim. Samkvæmt Jóni Þór Víglundssyni, upplýsingafulltrúa hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, eru ferðamennirnir á fimm vel útbúnum jeppum en það var orðið lítið um bensín og vistir.
Óvíst er með færð um miðhálendið og því var ákveðið að senda „þokkalegt viðbragð“, þar á meðal snjóbíla. Sá floti er á leiðinni núna.
Veðurfræðingur Vegagerðarinnar hefur varað við aðstæðum á vegum landsins. Hlý og hvöss sunnanátt gengur yfir og vegir eru víða flughálir á meðan snjó og klaka leysir.