Fyrir suðvestan land er lægðasvæði og skil frá því liggja til norðausturs. Hvöss norðaustanátt og snjóar víða í dag, einkum um norðan- og austanvert landið. Eftir hádegi dregur úr ofankomunni, þá verða norðaustan 18-23 m/s norðvestan til á landinu, en hægari vindur annars staðar.
Skilin hreyfast lítið og það er áfram spáð nokkuð hvössum vindi á morgun, jafnvel stormi eða roki syðst á landinu. Slydda, rigning eða snjókoma með köflum. Hiti kringum frostmark, en gæti skriðið yfir fimm gráður við suðurströndina þegar best lætur.
Ferðalöngum er ráðlagt að kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað og kynna sér veður og veðurspá.