Það var frekar heimilislegt við afhendingu undirskriftalistans í dag þótt tilefnið sé alvarlegt. Kristján Hálfdánarson formaður húsfélagsins í Árskógum 7 bauð borgarstjóranum heim til sín og þar voru líka aðrir íbúar hússins sem hafa græna ferlíkið fyrir augunum alla daga. Þau sem skrifa undir krefjast þess að framkvæmdir við Álfabakka 2A til 2D verði stöðvaðar. Helst vill húsfélagsformaðurinn að húsið verði rifið og fjarlægt eða í það minnsta að færa vöruhúsið næst íbúðablokkinni í hinn enda skemmunnar löngu. „Það er bara glórulaust að hafa svona iðnaðarhúsnæði inni í miðri íbúðabyggð,“ segir Kristján. Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir að stjórnsýsluúttekt verði tilbúin eftir nokkra mánuði: „Það ríður meira á að útfæra breytingar á gaflinum á þessu húsi þannig að íbúar fái svör.“