Athugið að þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul

Tímarammi aðgerða í húsnæðismálum óljós

Erla María Davíðsdóttir

,

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun boðaði til opins fundar í gær þar sem Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra ræddi þær aðgerðir sem stjórnvöld ætla að ráðast í við uppbyggingu á húsnæði. Inga segir mikilvægt að tryggja nægt aðgengi að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði svo hægt sé að auka húsnæðisöryggi tekjulægri hópa.

„Við höfum kynnt til dæmis bráðaaðgerðir hvað lýtur að hreyfanlegu húsnæði, einingarhúsum sem við getum fært til og komið upp í fljótheitum, án þess að vera kannski búin að fylgja öllu þessu fasta formi sem hefur tafið í rauninni mjög mikið af uppbyggingu og mörgum aðgerðum og verkferlum,“ segir Inga.