Rafræn vöktun í sundlaugum í Árborg og Akraneskaupstað samræmdist ekki lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þetta kemur fram í ákvörðunarorðum Persónuverndar að lokinni frumkvæðisathugun. Athugun Persónuverndar í sundlaugum Akureyrarbæjar og Mosfellsbæjar var í lagi. Lagði Persónuvernd fyrir Akraneskaupstað að uppfæra merkingar um rafræna vöktun og einnig fræðslu. Fram til september í fyrra þótti Persónuvernd ljóst að merkingar og fræðsla í sundlaugum Árborgar væri ekki í samræmi við lög. Fékk Árborg áminningu frá Persónuvernd vegna brots á lögum. Allt var komið í lag í nóvember þegar Persónuvernd fór þangað í vettvangsferð.
Rafrænt eftirlit er nú í lagi í Sundlaug Selfoss.RÚV / Guðmundur Bergkvist