25. febrúar 2025 kl. 6:50
Innlendar fréttir
Veður

Útlit fyrir lægðagang í lok vikunnar

Útsýni yfir Seljahverfi í Reykjavík, þoka og snjókoma.
Búast má við dálítilli snjókomu víða í dag og éljum seinni partinn á Suður- og Vesturlandi.Margrét Adamsdóttir

Í dag verður suðvestlæg eða breytileg átt á landinu, víða 5-13 m/s og dálítil snjókoma. Hiti verður um eða undir frostmarki.

Búast má við éljagangi sunnan og vestan til á landinu síðdegis í dag. Á sama tíma birtir til á norðanverðu landinu.

Á morgun er spáð suðvestan og vestan golu eða kalda. Víða verða él en úrkomuminna á landinu norðanverðu. Frost 0-7 stig.

Áframhaldandi él á fimmtudag og suðvestan 5-13 m/s en þurrt að kalla á Norðaustur- og Austurlandi.

Seint á fimmtudagskvöld hvessir og fer að rigna og í lok vikunnar er útlit fyrir talsverðan lægðagang með umhleypingasömu veðri.