6. mars 2025 kl. 18:11
Innlendar fréttir
Lögreglumál

Alvarleg líkamsárás í Hlíðunum

Mynd/Bjarni Rúnarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo menn í hverfi 105 í Reykjavík á fjórða tímanum í dag. Mennirnir eru grunaðir um meiriháttar líkamsárás, en einn maður var fluttur á sjúkrahús með áverka sem lögregla taldi alvarlega.

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn málsins á frumstigi, en að svo virðist vera að til átaka hafi komið milli fjögurra manna. Fjórði maðurinn hafði yfirgefið vettvang þegar lögregla kom á vettvang.

Talið er að mennirnir hafi beitt bareflum í árásinni. Tengsl mannanna liggja ekki fyrir á þessu stigi. Skýrslur verða teknar af hinum handteknu í kvöld.