Býður í partý til heiðurs lóunni og mamman er heiðursgestur

Erla María Davíðsdóttir

,

Elín Björnsdóttir, lóuáhuga- og stemningskona, segir að það séu bestu fréttir ársins þegar lóan kemur til landsins. Á hverju ári heldur hún lóupartý og Lóa móðir hennar er heiðursgestur.

„Ég byrjaði á þessari hefð 2021 þegar ég bauð bara lítilli búbblu í covid í kaffiboð og ákvað að baka lóuköku. Og árið eftir varð þetta enn þá stærra partý. Þá mátti vera með stærra partý og þetta er einhvern veginn búið að vinda upp á sig,“ segir Elín.

„Lóan kom núna 26. mars og að mínu mati eru það bara bestu fréttir ársins. Bara hundrað prósent. Eftir langan vetur þarf að fagna komu vorboðans ljúfa. Ekki spurning. Mér finnst líka svo þarfur tími núna til að koma saman og gleðjast eftir langan vetur. Sólin er að hækka á lofti og allt skemmtilegt fram undan.“