10. apríl 2025 kl. 1:07
Innlendar fréttir
Veður

Methiti í Reykjavík miðað við árstíma

Hitamet var slegið í Reykjavík í gær þegar dægurhiti, meðaltal átta athugana, mældist tíu stig. Þetta er í fyrsta sinn sem hann nær tíu stigum í Reykjavík svo snemma árs. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Bliku, vefs Veðurvaktarinnar ehf.

Þar segir að frá því að gögn ná til hafi hitinn komist næst tíu stigum á þessum árstíma árið 1928. Þá hafi dægurhiti reiknast 9,8 gráður.

Tíu stiga hiti mældist einnig víðar um landið í gær, þar á meðal í Stykkishólmi og Húsafelli, þar sem hann fór í tæp ellefu stig. Að sögn Bliku samsvarar það nokkurn veginn meðalhita í júlí.

Mannlíf í Reykjavík sumar 2024. Hér sést fólk á vappi á Laugarvegi, helst túristar á rafskútum/rafhlaupahjólum.
Mannlíf í Reykjavík síðasta sumar.RÚV / Ari Páll Karlsson