Athugið að þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul

Sameinuðust móður sinni eftir tíu mánaða aðskilnað

Eva Björk Benediktsdóttir

,

Maysoun flúði með börn sín fjögur til Egyptalands í fyrra vegna linnulausra árása Ísraelshers á Gaza. Eiginmaður hennar, sem er læknir, varð eftir. Þar beið þeirra fátt og börnin fengu ekki að ganga í skóla.

Maysoun kom síðar til Íslands til að freista þess að búa börnum sínum betra líf. Með henni var sex ára sonur hennar. Eldri börnin urðu eftir hjá fjölskyldu Maysoun í Egyptalandi.

Hún fékk vernd hér á landi og í mars varð ljóst að eldri börnin kæmu hingað á grundvelli fjölskyldusameiningar. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins sóttu börnin og komu þeim hingað í gærkvöld - eftir tíu mánaða aðskilnað.

„Ég er svo hamingjusöm að fá börnin mín og vonandi getur maðurinn minn komið líka,“ sagði Maysoun þegar hún tók á móti börnum sínum á Keflavíkurflugvelli í nótt.