6. febrúar 2023 kl. 17:19
Íþróttir
Leeds rak knattspyrnustjórann
Leeds United rak í dag knattspyrnustjórann Jesse Marsch, innan við einu ári eftir að hann tók við liðinu. Leeds tapaði 1-0 fyrir Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í gær og var það dropinn sem fyllti mælinn. Leeds hefur ekki unnið deildarleik síðan 5. nóvember og er í 17. sæti. Það sem skilur liðið að frá fallsæti er betri markamunur gagnvart Everton sem er í 18. sæti.
Bandaríkjamaðurinn Marsch tók við Leeds af Marcelo Bielsa í febrúar 2022 og slapp liðið naumlega við fall í vor þegar Leeds hafnaði í 17. sæti.