Gull til Noregs í blandaðri paragöngu
Keppt var í blandaðri paragöngu á HM í skíðaskotfimi í dag. Einn karl og ein kona eru í hverju liði og gengur hvor keppandi tvo leggi og skýtur tvívegis á hvorum legg.
Ítalska sveitin byrjaði best en lið Austurríkis náði forystunni eftir fyrsta legginn. Austurríki hélt forystu sinni þar til í lok þriðja leggs þegar Marte Olsbu Röiseland skaut Noregi í efsta sæti. Flestir bjuggust við því að Johannes Thingnes Bö myndi sigla öruggum norskum sigri í hús en hann klikkaði þrisvar á fyrri skotseríu sinni og þurfti að fara refsihring. Það opnaði Austurríkismanninum David Komatz leiðina í efsta sæti að nýju. Spennan var svo gríðarleg fyrir síðustu skotseríuna hjá körlunum. Þar bætti Thingnes Bö heldur betur fyrir mistök sín. Hann hitti úr öllum fimm skotum sínum í lokaskotseríunni á meðan Komatz klikkaði á einu skoti. Thingnes Bö gekk svo örugglega fyrstur í mark og Noregur vann gullið.
Þetta eru önnur gullverðlaun Olsbu Röiseland á mótinu í ár og tólftu alls. Johannes Thingnes Bö vann hins vegar fimmtu gullverðlaun sín á mótinu í ár og sautjándu alls.
Frídagur er á HM á morgun en á laugardag er keppt í boðgöngu karla og kvenna og mótinu lýkur svo á sunnudag þegar hópstart karla og kvenna fer fram. Sýnt er beint frá öllum greinum á RÚV og RÚV 2.