2. mars 2023 kl. 15:18
Íþróttir

Norðmenn safna enn gullverðlaunum á HM í skíðagöngu

Norðmenn halda áfram að raka til sín verðlaunum í skíðagöngugreinum á HM í norrænum greinum. Norskar konur unnu þó sín fyrstu gullverðlaun á mótinu í dag.

Í keppni dagsins var keppt í boðgöngu kvenna. Hvert lið tefldi fram fjórum konum og hver þeirra gekk fimm kílómetra. Þrettán sveitir tefldu fram liðum meðal annars Svíar sem höfðu verið sigursælir í kvennaflokki og höfðu unnið þrjár af fjórum greinum mótsins fyrir daginn. Svíar urðu þó að gera sér brons að góðu í boðgöngunni í dag. Þjóðverjar unnu silfur, en norska sveitin gekk hraðast allra í dag.

Norska kvennaliðið á HM í skíðagöngu 2023.
EPA

Norsku sveitina skipuðu þær Tiril Udnes Weng, Astrid Öyre Slind, Ingvild Flugstad Östberg og Anne Kjersti Kalvå. Þær komu í mark á 50 mínútum og 33,3 sekúndum, 20,5 sekúndum á undan Þjóðverjum í öðru sætinu.

Þetta voru fimmtu gullverðlaun Norðmanna í skíðagöngu á HM í norrænum greinum í Slóveníu í ár. Norðmenn hafa unnið öll verðlaunin í karlaflokki það sem af er. Á morgun verður keppt í boðgöngu karla klukkan 11:20 og verður sýnt beint frá keppninni á RÚV.