Tindastóll komið í undanúrslit
Fjórði leikur Tindastóls og Keflavíkur í átta liða úrslitum Subway-deildar karla endaði með 97-79 sigri Sauðkræklinga sem þýðir að þeir vinna einvígið 3-1 og eru komnir í undanúrslit.
Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi og leiddu Keflvíkingar með einu stigi þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Frábær lokakafli Tindastóls skilaði þeim þó 10 stiga forystu þegar gengið var til búningsherbergja, hálfleikstölur voru 49-39.
Keflvíkingar náðu ekki að gera alvöru atlögu að því að jafna leikinn, Tindastóll leiddi með 16 stigum fyrir síðasta leikhluta og allur kraftur virtist úr gestunum sem hafa lokið þátttöku sinni á þessu Íslandsmóti.
Tindastóll, sem endaði í fimmta sæti deildarinnar í ár, fór alla leið í úrslitaeinvígið í fyrra þar sem það tapaði fyrir Val. Auk þeirra hafa Valur og Njarðvík tryggt sæti sitt í undanúrslitum en Haukar geta náð síðasta sætinu í kvöld, vinni þeir Þór frá Þorlákshöfn.