23. apríl 2023 kl. 14:56
Íþróttir
Stórsigrar í ensku úrvalsdeildinni
Tveir leikir voru á dagskrá ensku úrvalsdeildar karla í fótbolta í dag. Newcastle fór illa með liðsmenn Tottenham en það var orrahríð að marki gestanna frá London í byrjun leiks. Eftir 21. mínútna leik var staðan 5-0. Lokatölur urðu 6-1 þar sem enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane minnkaði muninn rétt eftir hálfleik. Newcastle er nú komið í þriðja sæti deildarinnar.
Suður með sjó í Bournemouth unnu West Ham öruggan 0-4 sigur. Liðsmenn David Moyes virðast vera að snúa blaðinu við eftir erfitt tímabil, en West Ham skoraði einnig fjögur mörk í síðasta leik gegn belgíska liðinu Gent í átta liða úrslitum Evrópsku Sambandsdeildarinnar.