1. maí 2023 kl. 11:47
Íþróttir

Ísland í sterkum riðli í forkeppni Ólympíuleikanna

Dregið var í dag í forkeppni Ólympíuleikanna í körfubolta karla, og var Ísland þar í pottinum. Íslenska liðið var dregið í riðil með Tyrklandi, Úkraínu og Búlgaríu. Riðill Íslands verður leikinn í Istanbúl í Tyrklandi 12.-20. ágúst næstkomandi.

Aðeins sigurlið hvers riðils kemst áfram í undankeppni Ólympíuleikanna, en í forkeppninni eru þau lið sem tóku þátt í undankeppni HM, en komust ekki í lokakeppnina, sem er í haust. Liðin á HM bætast svo í hópinn að lokinni forkeppninni og þá verður önnur riðlakeppni til að ákvarða liðin sem komast á Ólympíuleikana.

Elvar Már Friðriksson fagnar körfu í leik íslenska körfuboltalandsliðsins gegn Georgíu 26. febrúar 2023. Leikurinn vannst 77-80, en Ísland þurfti fjögurra stiga sigur.
FIBA