Valur vann Stjörnuna með minnsta mun
Stjarnan og Valur mættust í öðrum leik liðanna í TM Höllinni í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í dag þar sem Valskonur unnu 24-25. Stjarnan vann fyrsta leik liðana svo staðan í einvíginu er 1-1 en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit.
Fyrri hálfleikur var æsispennandi þar sem liðin skiptust á að leiða með einu til tveimur mörkum. Valskonur enduðu hálfleikinn betur og staðan í hálfleik var 13-15.
Valur virtist svo ætla að klára síðari hálfleik þægilega en staðan var orðin 16-21 þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Stjarnan var þó síður en svo búið að leggja árar í bát og jafnaði leikinn þegar fjórar mínútur voru eftir, 24-24. Valskonur skoruðu þegar mínúta var eftir. Stjarnan tók leikhlé og freistaði þess að jafna með síðustu sókn sinni. Sara Sif Helgadóttir varði hins vegar skot Helenu Rutar Örvarsdóttur og Valur jafnaði einvígið.