4. maí 2023 kl. 20:45
Íþróttir

ÍBV tók frumkvæðið gegn FH

ÍBV leiðir í undanúrslitaeinvígi Olís deildar karla eftir 27-31 sigur í Kaplakrika. Vel var mætt í Kaplakrika í kvöld. Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik, en staðan var 6-6 eftir 14 mínútna leik. FH var þó 15-14 yfir í hálfleik, en þá snerust leikar.

RÚV / Mummi Lú

ÍBV náði að skapa sér smá forskot er þeir komust í 17-19 eftir 37 mínútna leik. ÍBV hélt frumkvæðinu það sem eftir var leiks, en staðan var 24-27 þegar fimm mínútur lifðu leiks. ÍBV héldu áfram að stækka bilið og komust í fjögurra marka forskot. Lokatölur urðu 27-31.

Ásbjörn Friðriksson fór fyrir Hafnfirðingum í kvöld með 12 mörk úr 15 skotum, þar af voru átta úr vítum. Næstir voru Einar Bragi Aðalsteinsson og Jóhannes Berg Andrason með fjögur mörk í 33.3% og 40% skotnýtingu.

Kári Kristján Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Eyjamenn, þar af voru fjögur víti. Rúnar Kárason fylgdi á eftir með sjö mörk úr fjórtán skotum.

Næsti leikur liðanna er í Vestmannaeyjum á sunnudaginn kemur.