Mosfellingar komnir yfir í einvíginu gegn Haukum
Afturelding og Haukar áttust við í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni karla í handbolta í kvöld. Eftir spennandi leik höfðu Mosfellingar sigur og eru því 1-0 yfir í einvíginu. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.
Liðin skiptust á því að vera með frumkvæðið í fyrri hálfleik en undir lok hans tóku Haukar góðan sprett og leiddu 13-10 í hálfleik. Haukar voru svo yfir þar til rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum.
Þá jafnaði Afturelding metin og komst fjórum mörkum yfir í stöðunni 21-17. Sú forysta entist þeim út leikinn og 28-24 sigur niðurstaðan. Birkir Benediktsson og Ihor Kopyshynskyi voru markahæstir í liði Aftureldingar með 7 mörk hvor.
Liðin mætast næst á Ásvöllum á mánudaginn kemur.