Loksins vann Chelsea – Kane upp fyrir Rooney
Fjórum leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Chelsea vann Bournemouth á útivelli, 1-3, en þetta var fyrsti sigur liðsins undir stjórn Frank Lampard. Liðið hafði ekki unnið síðan 11. mars, þegar liðið lagði Leicester, og situr nú í 11. sæti deildarinnar. Mörk Chelsea skoruðu Conor Gallagher, João Félix og Benoît Badiashile sem var að skora sitt fyrsta mark fyrir Lundúnafélagið. Matías Viña skoraði mark Bournemouth.
Þá vann Tottenham 1-0 sigur á Crystal Palace en markið skoraði Harry Kane. Hann er nú kominn upp yfir Wayne Rooney í fjölda marka í ensku úrvalsdeildinni og er þá í öðru sæti á þeim lista. Harry Kane hefur skorað 209 mörk en efstur er Alan Shearer með 260 mörk. Kane gæti náð honum á næstu 2-3 árum haldi hann áfram að skora jafn mikið og hann hefur gert undanfarin ár.
Manchester City er komið með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar eftir sigur á Leeds, 2-1. Wolves höfðu svo betur gegn Aston Villa, 1-0.