8. maí 2023 kl. 22:10
Íþróttir

Klæmint skoraði í Blikasigri

Breiðablik hafði betur gegn Fylki í Árbænum í Bestu deild karla í fótbolta rétt í þessu. Blikar höfðu 1-2 sigur og færðust nær toppliðunum, en Fylkir er sem fyrr á botni deildarinnar.

RÚV / Mummi Lú

Færeyingurinn Klæmint Olsen kom Breiðablik yfir eftir 26. mínútna leik en Ólafur Karl Finsen jafnaði metin skömmu síðar. Nikulás Val Gunnarsson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir 85. mínútna leik.

Tveimur öðrum leikjum lauk fyrr í kvöld en FH sigraði Keflavík með tveimur mörkum gegn einu. Úlfur Ágúst Björnsson og Kjartan Henry Finnbogason skoruðu mörk heimamanna sitt hvorum megin við hálfleikinn en Viktor Andri Hafþórsson skoraði mark Keflvíkinga þegar skammt lifði leiks. FH hélt út og er nú í 5. sæti deildarinnar.

Þá tók Fram á móti Stjörnunni í Úlfársdal. Framarar höfðu þar 2-1 sigur þar sem Orri Sigurjónsson og Aron Jóhansson skoruðu mörkin á 28. og 59. mínútu. Guðmundur Baldvin Nökkvason minnkaði muninn fyrir liðsmenn Ágústs Gylfasonar en lengra komust gestirnir úr Garðabæ ekki.