Evrópumeistaratitillinn kom Sóleyju á óvart
Sóley Margrét Jónsdóttir er nýjasti Evrópumeistari Íslendinga en hún varð um liðna helgi Evrópumeistari í kraftlyftingum með búnaði. Sóley gat ekki æft á fullu fyrir mótið og bjóst ekki við þessum góða árangri.
Sóley er aðeins 21 árs gömul og gæti því keppt í undir 23 ára flokki. Hún keppti hins vegar í fullorðinsflokki á EM um helgina og tryggði sér sigur eftir að hafa lyft samanlagt 660 kílóum í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.
„Þetta kom mér á óvart út af því hvernig uppkeyrslan var. Ég er búin að vera að glíma við meiðsli. Ég var ekki að búast við að þetta myndi ganga svona vel,“ segir Sóley sem hafði ekki tekið eina réttstöðulyftu fyrir mótið því hún sleppti henni í undirbúningnum vegna bakmeiðsla.
Sóley var í handbolta í tíu ár áður en hún færði sig yfir í kraftlyftingar. Rætt var við Sóleyju í íþróttafréttum.