15. maí 2023 kl. 9:09
Íþróttir
Hareide vill Gylfa Þór í landsliðið
Åge Hareide, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, segist áhugasamur um að fá Gylfa Þór Sigurðsson aftur í íslenska landsliðið. Þetta kemur fram í Dagmálum á mbl.is.
„Ég tjáði honum það að persónulega væri ég mjög áhugasamur um að fá hann aftur í landsliðið. Ég myndi vilja fá hann aftur og það væri bæði gott fyrir hann og líka fyrir leikmannahópinn,“ segir Åge.
Hann segir þó alveg ljóst að Gylfi Þór verði að finna sér félagslið og byrja aftur að spila fótbolta og sýna að hann hafi getuna.
„Hann verður sjálfur að ákveða hvort hann vilji spila aftur. Ef hann gerir það verður hann í mínum áætlunum. Ef hann heldur sama getustigi og áður,“ segir Åge Hareide.