Valskonur 2-0 yfir í einvíginu gegn ÍBV
Úrslitaeinvígi kvenna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta hélt áfram í kvöld með öðrum leik ÍBV og Vals. Þetta var annar leikur liðanna í einvíginu og unnu Valskonur fyrsta leikinn í Eyjum. Skörð eru hoggin í bæði lið en Birna Berg Haraldsdóttir er úr leik með ÍBV og Thea Imani Sturludóttir var ekki með Val. Leikurinn var jafn til að byrja með en Valskonur sigu þá fram úr og voru komnar með sex marka forystu á tímabili. Hálfleikstölur voru 14-9 og verkefnið strembið fyrir Eyjakonur í seinni hálfleik.
Mest náðu þær að minnka muninn niður í tvö mörk undir lokin en Valur náði að halda forystunni og sigldi sigrinum heim. 25-22 urðu lokatölur og Valur er því komið með 2-0 forystu í einvíginu og getur þar með orðið Íslandsmeistari í Vestmannaeyjum þegar liðin mætast í þriðja sinn á laugardaginn kemur. Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst hjá Val með 9 mörk og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hjá ÍBV með 11 mörk.