Manchester City í úrslit eftir öruggan sigur
Manchester City mun mæta Inter Milan í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 10. júní en það varð ljóst eftir að City vann Real Madrid í síðari leik liðanna í kvöld, 4-0.
Fyrri leikurinn fór 1-1 í Madrid og því mikil spenna fyrir leikinn í kvöld í Manchester en heimamenn réðu lofum og lögum allan leikinn. Bernardo Silva var tvívegis á skotskónum í fyrri hálfleik, fyrst á 23. mínútu og svo á þeirri 37.
Éder Militão varð svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 76. mínútu og Julián Álvarez rak síðasta naglann í kistuna þegar hann skoraði fjórða mark City á fyrstu mínútu uppbótartíma.
Manchester City freistar þess að vinna Meistaradeildina í fyrsta skipti í sögu félagsins en liðið varð í öðru sæti 2021. Inter Milan vann titilinn síðast 2010, þá í þriðja sinn.