23. maí 2023 kl. 21:00
Íþróttir

Hannes Hlífar efstur á Íslandsmótinu í skák

Níunda og þriðja síðasta umferð Íslandsmótsins í skák var tefld í dag og í kvöld og að henni lokinni er Hannes Hlífar Stefánsson einn efstur á mótinu.

Hann lagði Hjörvar Stein Grétarsson í dag, en Hjörvar Steinn á titil að verja. Á sama tíma gerði Guðmundur Kjartansson jafntefli við Aleksandr Domalchuk-Jónasson og Vignir Vatnar Stefánsson lagði Jóhann Ingvason.

Hannes Hlífar er með 8 vinninga eftir 9 umferðir, Guðmundur er með sjö og hálfan og Vignir Vatnar sjö. Næstsíðasta umferð er á morgun og sú síðasta á fimmtudag en fylgjast má með gangi mála á skák.is.

Á morgun mætir Hannes Hlífar Jóhanni Hjartarsyni, Guðmundur teflir gegn Jóhanni og Vignir Vatnar tekst á við Braga Þorfinnsson.

Staðan á mótinu:

  • Hannes Hlífar Stefánsson - 8 vinningar
  • Guðmundur Kjartansson - 7,5 vinningar
  • Vignir Vatnar Stefánsson - 7 vinningar
  • Hilmir Freyr Heimisson - 6,5 vinningar
  • Aleksandr Domalchuk Jónasson - 4,5 vinningar
  • Hjörvar Steinn Grétarsson - 4,5 vinningar
  • Jóhann Hjartarson - 4,5 vinningar
  • Lenka Ptácníková - 3 vinningar
  • Henrik Danielsen - 2,5 vinningar
  • Dagur Ragnarsson - 2,5 vinningar
  • Bragi Þorfinnsson - 2,5 vinningar
  • Jóhann Ingvason - 1 vinningur
Frá viðureign Hannes Hlífars Stefánssonar og Hilmis Freys Heimissonar á Íslandsmótinu í skák 22. maí 2023.
Skák.is