28. maí 2023 kl. 19:06
Íþróttir

Fylkir hafði betur gegn ÍBV

Fylkir tók á móti ÍBV í fyrsta leik níundu umferðar Bestu deildar karla í dag. Fylkismenn unnu leikinn 2-1 og eru komnir upp í sjöunda sæti deildarinnar með tíu stig. ÍBV er hins vegar í næst neðsta sætinu með sex stig en þetta var fimmta tap liðsins í röð.

ÍBV byrjaði leikinn betur og á 10. mínútu skoraði Alex Freyr Hilmarsson með snyrtilegu innanfótarskoti. Orri Sveinn Stefánsson jafnaði leikinn á 31. mínútu eftir góða hornspyrnu Fylkismanna. Sigurmarkið kom svo á 54. mínútu en Óskar Borgþórsson átti skot fyrir utan teig sem hafði viðkomu í varnarmanni ÍBV og af honum fór boltinn í netið. Þetta var þriðja mark Óskars í deildinni í sumar.

Orri Sveinn Stefánsson, leikmaður Fylkis, og Dagur Ingi Valsson, leikmaður Keflavíkur, í barráttunni í fyrstu umferð Bestu deildar karla 2023
RÚV / Mummi Lú

Orri Sveinn Stefánsson í leik gegn Keflavík fyrr í sumar

Tveir leikir hefjast klukkan 19:15 í kvöld; FH tekur á móti HK og í Vesturbænum fá KR-ingar Stjörnuna í heimsókn.