Norðanmenn höfðu betur í markaleik
KA hafði betur gegn Fram, 4-2, í Bestu deild karla í fótbolta rétt í þessu. Jafnt var í hálfleik, 1-1 eftir að markahrókurinn Guðmundur Magnússon kom Fram yfir en Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði metin fyrir KA úr víti. Í síðari hálfleik kom Bjarni Aðalsteinsson KA mönnum yfir en Framarar jöfnuðu með marki Fred af vítapunktinum. Skömmu síðar kom hinn siglfirski Jakob Snær Árnason inn á af varamannabekknum og gerði hann út um leikinn með tveimur mörkum á 85. og 92. mínútu.
Hallgrímur Mar var á skotskónum í kvöld.
Eftir sigurinn eru Norðanmenn í KA komnir með 14 stig og eru í fimmta sæti deildarinnar. Framarar eru með átta stig að níu leikjum loknum, í níunda sæti deildarinnar.
Klukkan 19:15 mætast Víkingur Reykjavík og Valur í toppslag og Keflavík tekur á móti Breiðablik.