2. júní 2023 kl. 3:14
Íþróttir

Denver Nuggets sigraði Miami Heat í fyrsta leik NBA úrslitanna

Serbinn Nikola Jokić leiddi Denver Nuggets til 104 : 93 sigurs gegn Miami Heat í úrslitum NBA-körfuboltadeildarinnar bandarísku í nótt.

Caleb Martin, framherji Miami Heat (í miðið) býr sig undir að kasta boltanum í körfu, umkringdur Michael Porter Jr., sóknarmanni Denver Nuggets (til vinstri) og miðherjanum Nikola Jokic (til hægri), í fyrsta fjórðungi fyrsta leiks liðanna í úrslitakeppni NBA körfuboltadeildarinnar 1. júní 2023.
EPA-EFE / EPA-EFE/BOB PEARSON

Denver Nuggets var stofnað árið 1967 undir heitinu Denver Larks en því var nær umsvifalaust breytt í Denver Rockets. Nuggets nafnið var tekið upp 1974, liðið hefur aldrei áður komist í úrslit en Miami Heat, stofnað 1988, er þrefaldur meistari. Titlarnir komu allir á þessarri öld.

Jokić skoraði 27 stig, náði tíu fráköstum og fjórtán stoðsendingum. Það lið sem hefur betur í allt að sjö viðureignum hampar meistaratitlinum en næsti leikur verður á heimavelli Nuggets í Ball Arena í Denver.