13. júní 2023 kl. 18:28
Íþróttir

Beit andstæðing og fékk fjögurra leikja bann

Alberto Sanchez Montilla, leikmaður Kormáks/Hvatar í knattspyrnu, fékk fjögurra leikja bann fyrir að bíta Hilmar Halldórsson í leik liðanna síðustu helgi. Hann fékk að líta rauða spjaldið í leiknum sem þýðir sjálfkrafa eins leiks bann en KSÍ bætti við þremur leikjum vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu.

Alls fóru sex rauð spjöld á loft í leiknum sem lauk með 1-1 jafntefli en liðsfélagi Hilmars, Marinó Hilmar Ásgeirsson, fékk eitt spjaldanna fyrir að rífa Sancez af Hilmari eftir bitið.

Bitfarið eftir leikinn.
Facebook / Knattspyrnufélag Kára

Mynd sem Kári birti af bitfarinu á Hilmari eftir leikinn

Úrúgvæski framherjinn Luis Suárez er sennilega frægasti leikmaður knattspyrnusögunnar til að hafa verið dæmdur í bann fyrir að bíta andstæðing en það gerðist alls þrisvar á hans ferli. Fyrst í leik með Ajax þar sem hann fékk sjö leikja bann, síðan í leik með Liverpool þar sem hann var dæmdur í tíu leikja bann og að lokum í landsleik gegn Ítalíu en þá fékk hann fjögurra mánaða bann og mátti hvorki leika né æfa knattspyrnu í þann tíma.