16. september 2023 kl. 13:31
Íþróttir
Fótbolti

Liverpool með góðan endurkomusigur

Wolves og Liverpool mættust í fyrsta leik fimmtu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Liverpool vann að lokum 1-3 sigur.

Það voru þó Úlfarnir sem komust yfir strax á sjöundu mínútu þegar Hee Chan Hwang skoraði. Liverpool tókst ekki að svara í fyrri hálfleik svo Wolves fór inn í búningsherbergi með eins marks forskot.

Cody Gakpo jafnaði metin á 55. mínútu og Andrew Robertson kom gestunum yfir fimm mínútum fyrir leikslok. Hugo Bueno varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark í uppbótartíma eftir laglegt skot Harvey Elliott.

Liverpool er nú á toppi deildarinnar með 13 stig en hefur þó spilað leik meira en liðin fyrir neðan. Wolves er einungis með þrjú stig í 15. sæti.